Almanaksbókin

Almanaksbókin er lifandi verkefnabók án ártala og því tímalaus ef svo má segja. Hér finnur þú ýmsan fróðleik um mánuði, daga og vikur á einum stað, og getur prentað út fjölbreytt verkefni til að vinna með nemendum. Einnig verða sett upp skjöl sem hægt er að nota í kennsluskipulaginu eða til að lífga upp á skólastofuna. Þannig fylgja sem dæmi alltaf flögg með mánaðarheitunum sem hægt er að klippa út, festa á band og hengja upp. Reikna má með því að verkefnagrunnur Almanaksbókarinnar vaxi og dafni með ári hverju og því tilvalið að safna þeim saman. Fyrir áhugasama má prenta út forsíður á bókina hér. Með ósk um góða skemmtun og gleðilegt starfsár!

 

januarflagg-01Fyrsti mánuður ársins er janúar nefndur í höfuð rómverska guðsins Janusar. Sá hafði tvö andlit og horfði bæði til fortíðar og framtíðar. Íslendingar nota gregoríska tímatalið sem kennt er við páfann Gregoríus þann þrettánda. Helstu merkisdagar janúarmánaðar eru 1. janúar, eða nýársdagur, 6. janúar sem oftast er nefndur þrettándinn og svo bóndadagur. Bóndadagur er fyrsti dagur þorra og ber alltaf upp á föstudag í 13. viku vetrar (19. – 25. janúar) en þá er veturinn hálfnaður. Margar skemmtilegar hefðir, gamlar og nýjar, eru til í tengslum við bóndadaginn.

 

 

 

 

Annar mánuður ársins er febrúar, nefndur í höfuð rómverska guðsins Februusar. Helstu merkisdagar febrúarmánaðar eru dagur stærðfræðinnar ávallt haldinn fyrsta föstudag mánaðarins, 112 dagurinn haldinn 11. febrúar og Valentínusardagurinn, eða dagur elskenda, haldinn 14. febrúar. Í febrúar líkur þorranum með þorraþræl en svo nefnist síðasti dagur gamla mánaðarheitisins. Fyrsti dagur góu er gjarnan nefndur konudagurinn og ber alltaf upp á sunnudaginn í 18. viku vetrar. Þá má ekki gleyma bolludegi, sprengidegi og öskudegi sem allir eiga sína merkilegu sögu samtvinnaða trúarlegum rótum hinnar 7 vikna páskaföstu.